Wikivitnun:Höfundaréttur
Um höfundarétt á Wikiquote gildir að meginreglu sama stefna í höfundaréttarmálum og á Wikipediu eða öðrum verkefnum Wikimedia-stofnunarinnar, það vísast því til hennar vegna flestra spurninga um höfundarétt. Það ber hinsvegar að minna á það að mikið af efni Wikiquote fellur ekki undir GFDL, enda um að ræða beinar tilvitnanir í önnur verk. Sum þessara verka njóta ekki verndar höfundaréttar vegna aldurs en þegar vitnað er í verk sem nýtur verndar höfundaréttarlaga þarf að hafa nokkur atriði í huga:
Í höfundaréttarlögum einstakra landa sem og í alþjóðasáttmálum um þau efni er gert ráð fyrir heimildum til þess að vitna beint í verk með nokkrum skilyrðum, bandarísk lög skipta hér miklu þar sem Wikiquote er hýst í Bandaríkjunum. Í bandarískum rétti eru þessi skilyrði talin fjórþætt:
- Er efnið notað í fræðslu- og menntunartilgangi?
- Eðli verksins sem vitnað er í.
- Umfang tilvitnunarinnar í hlutfalli við verkið sem vitnað er í.
- Áhrif notkunar tilvitnunarinnar á mögulegt verðmæti og sölumöguleika verksins.
Wikiquote er vissulega rekið í menntunar- og fræðslutilgangi þannig að fyrsta skilyrðið er uppfyllt en gæta ber þó hófs í samræmi við hin þrjú skilyðin.
Varðandi eðli verksins sem vitnað er í þá getur skipt máli hvort um sé að ræða bók, kvikmynd, sjónvarpsþátt eða eitthvað annað, ólík viðmið um hvað sé réttlætanlegt í þessum efnum gilda um ólíka miðla.
Þriðja atriðið er sjálfsagt það mikilvægasta. Gæta verður hófs í lengd tilvitnanna, erfitt er að fastsetja ákveðin mörk í þessu sambandi en allajafna ættu tilvitnanir ekki að vera lengri en tvær til þrjár setningar. Hér verður líka að huga að hlutfallslegri lengd tilvitnana miðað við verkið sem vitnað er í, því styttra sem verkið er því minna er hægt að vitna í það með réttmætum hætti. Einnig er óæskilegt að tilvitnanir séu of margar úr sama verkinu, t.d. kvikmynd eða sjónvarpsþætti.
Fjórða atriðið segir okkur það að það er ekki endilega lengd tilvitnunar sem mestu máli skiptir heldur eðli hennar. Ef ein setning í bók er mun mikilvægari en aðrar, t.d. vegna þess að þar kemur fram lokaniðurstaða þá getur talist óheimilt að birta hana í beinni tilvitnun enda geti það komið niður á möguleikum höfundarins til að hagnast á verki sínu.